Saturday, February 25, 2006

Á Leið Til Akureyrar

Þá er komið að því að leggja land undir fót og bregða sér til akureyrar. Þar er árshátíð hjá rokkklúbbnum Reiðmenn (Ömurlegt nafn) og verður það örugglega mikið stuð. Þar verður m.a. spurningarkeppni, valinn besti söngvari allra tíma og besta gítarsóló allra tíma! Það verður leynigestur (wonder who?) og örugglega drukkinn einn bjór eða tveir. Fer norður með Sigga Sverris og við förum bílandi þannig að það fer væntanlega góður tími í keyrslu og ég verð að viðurkenna að það er nú ekki alveg í blóðinu að fara í svona langferðir. Mér finnst langt til Eyrarbakka!
Ég vona að þorrablótsvalentínugeimið fari vel fram og leiðinlegt að vera fjarri góðu gamni.

Sunday, February 12, 2006

Lufsurnar

Ég fór í langferð um helgina. Alla leið til keflavíkur! Ég undirbjó mig vel, setti 1500 lög inná i-poddinn, tók með bakpoka með nýja Classic Rock blaðinu, bók og fleiri nausynjavörur fyrir svona langt ferðalag. En viti menn, þó að rútan silaðist í gegnum hafnarfjörð á leiðinni tók ekki nema 50 minútur að koma sér á staðinn. Það er styttri tími en að fara í smáralind í nýja strætókerfinu!

En allavega, tilgangur ferðarinnar var að mæta í árshátíð hjá rokk klúbbi í keflavík sem heitir lufsurnar og hef ég verið meðlimur í honum í mörg ár en ekki farið á fund árum saman. Þetta er rosalega skemmtilegur félagsskapur, samblanda af eldri mönnum eins og mér ásamt yngri rokkurum sem hafa bæst við undanfarin ár. Dagskráin var mjög skemmtileg, fyrir utan að drekka bjór eins og búast má við og hlusta á gott rokk, voru valdar plötur ársins auk þess sem að löng og skemmtileg spurningarkeppni var sett upp. Það var greinilega mikil vinna sett í leikinn og hreint óskaplega gaman að taka þátt og ekki skemmdi fyrir að liðið sem ég var í vann :-) Plötur ársins voru svo valdar í topp 5. 1. Opeth. 2. System of a down (báðar plöturnar sem komu út á árinu). 3. Clutch. 4. Soulfly. 5. Arch Enemy. Ég var með í topp 5 Opeth, System, Mars Volta, Soulfly og Judas Priest þannig að 3 af mínum plötum komust inn á listann. Þetta var mjög gaman.

Svo eftir 2 vikur fer ég til akureyrar þar sem annar rokk klúbbur hefur boðið mig á "fund" og verður það mjög spennandi. Ég hef ekki áður mætt á fund með þeim félögum en það verður örugglega skemmtilegt, þar fyrir utan að ég hef ekki komið til akureyrar í 10 ár eða meira.

Svo keypti ég mér miða á "War of the worlds" með sinfóníuhljómsveitinni og er mjög spenntur fyrir því. Það er eitthvað við War of the worlds verkið sem hefur alltaf heillað mig.

Tuesday, February 07, 2006

Kjaftadeildin

Ég er búinn að komast að því að ég er alveg glataður í kjaftadeildinni! Ég hef undanfarið verið í sjúkraþjálfun sem er ekki frásögum færandi, en það er með þá staði eins og heitu pottana að fólk liggur og kjaftar um daginn og veginn. Og venjulega er ég engann veginn inní það msem er talað um. Fyrst var það handboltinn! Mér skildist að íslendingar slysuðust til að vinna einhverja leiki og það varð allt vitlaust. "Horfðuru á leikinn í nótt"? Sénsinn að maður mundi vakna upp á nóttinni að horfa á handboltaleik. Ég var greinilega utanvelta á bekknum þá vikuna. Síðan þegar handboltinn virtist taka enda (íslendingar hljóta að hafa tapað eða eitthað) tók við Eurovision. Vá helduru að Silvía Nótt verði rekin úr Eurovision? "Nei veistu ég hef ekki heyrt lagið eða horft á þessa forkeppni" Það var litið á mig eins og ég væri með fuglaflensu. Vá þessi er greinilega frá Mars eða eitthvað mátti lesa úr svipnum á nuddaranum. Eina skoðunin sem ég hef er að fyrst að leiðinlegasti maður íslands, Kristján Hreinsson, er að kæra þetta stend ég algerlega með Silvíu Nótt. Það er líka kominn tími til að íslendingar hætti að taka þessa keppni svona alvarlega! C'mon þessi keppni er bara djók hjá flestum þjóðum og íslendingar halda alltaf að þeir séu að senda meistarastykki í lagasmíðum og skilja ekkert í því að einu stigin sem við fáum eru einhver skyldustig hjá nágrannaþjóðum okkar. En það er greinilegt að ég þarf að taka mig á í kjaftadeildinni. Kannski að fara horfa á einhverja raunveruleikaþætti eða eitthvað.
Monty Python kvöldið heppnaðist mjðg vel og horfðum við á 2 myndir, Life of Brian og Fish called Wanda. Báðar hrein snilld. Og ég var að fá æðislega plötu í hendurnar með Mark Lanegan og Isobel Campbell. Þvílík snilld. Ég er nú samt viss um að ef ég færi að segja frá því í sjúkraþjálfuninni að ég fengi ansi tómann svip :-)