Sunday, October 01, 2006

Mein Kampf



Þessi kattarmynd hefur eiginlega ekkert með þetta blogg að gera. Mér fannst hún bara svo æðislega krúttarleg :-)

Það er einhvernveginn allt frekar viðburðarsnautt þessa dagana. Frábært veður um helgina og ég nýtti báða dagana fyrir gönguferðir og í dag fór ég í ellaðardalinn með i-poddinn minn og dottaði meir að segja við elliðarána.

Fór á leikrit í Borgarleikhúsinu á föstudagskvöld. Það var farsi sem nefnist "Mein kampf" og ég skemmti mér þrælvel. Leikritið var um Hitler á yngri árum í Vínarborg þar sem hann var á gistiheimili ásamt gyðingi sem hvatti hann til að snúa sér að stjórnmálum eftir honum var neitað inngöngu í Listaháskóla í Vín! Þór Túlinus var fínn sem gyðingurinn og þetta er annað leikritið sem ég sé með honum þar sem hann brillerar, hitt var einleikurinn "Manntafl". Það gengur hægt að ná leikhúshópnum saman en Grétar og Alma og co eru vonandi að koma sér í gírinn :-)

Ég hef verið að kenna mömmu að elda fullt af nýjum réttum og hún fílar það vel. Var orðin ansi leið á elda bara ofan í pabba og nú hafa bæst við fullt af kjúklinga, fiski og kjötréttum hjá henni.

Sunday, September 24, 2006

Löður



Munið þið eftir þáttunum "Soap" eða "Löður". Ég fékk mér fyrsta árið á DVD um daginn og þessir þættir eru FRÁBÆRIR! Ég byrjaði að horfa og eftir viku var ég búinn með alla 25 þættina og skemmti mér mjög vel. Þeir hafa lítið elst nema náttúrlega þessi æðislega late 70's tíska er náttúrlega óborgarleg. En grínið á jafnvel við í dag því enn eru sápuóperurnar hvort sem það eru "raunveruleika" þættir eða Leiðarljós við góða heilsu. Ég man reyndar að Löður lifði aðeins í 4 ár því að "Moral majorety" nasistarnir náðu að stoppa framleiðsluna, þeir þóttu ekki við hæfi hins "siðmenntaða" Ameríkana. En ég fæ
mér hinar 3 seríurnar það er á hreinu.

Annars er lítið að frétta. Fullt að gera í vinnunni og ég fór á Nick Cave tónleikana og skemmti mér vel. Er byrjaður að fara í leikhús á fullu. Fór á leikrit sem heitir "Afgangar" í Austurbæ um helgina og er að fara á "Mein Kampf" næstu helgi. Fannst "Afgangar" reyndar ekki gott stykki. Persónurnar voru lítt áhugaverðar og sagan risti ekki djúpt.

Hjólinu mínu var stolið í vikunni GRRRRRR. Var læst inní hjólageymslu og allt. Úthverfapakk!

Ég held áfram að léttast og með þessu áframhaldi verð ég bara ansi góður næsta sumar :-)

Fer svo aftur til akureyrar í næsta mánuði í rokkælupartý.

Sunday, August 27, 2006

Nöllið




Ég hef verið frekar rólegur undanfarið í að kaupa DVD enda haft nóg að horfa á :-) En nú tók ég loksins kast og pantaði fullt af myndum frá Amazon. Ég fann það þegar ég var að raða upp myndum að mig vantaði ansi mikið í Fantasy deildinni enda sá Tensai mest um þá deild :-) Þannig að ég fékk mér Spirited Away sem er ein af uppáhalds teiknimyndunum mínum. Ég tók 2 nýjar Fantasy myndir, Æon Flux og Ultraviolet og varð fyrir vonbrigðum með þær báðar. Það vantaði allann kraft í þær. Þetta eru ofbeldisfullar teiknimyndasögur en Hollywood er alltaf svo hrædd að myndir verði bannaðar yfir 12 ára þá komi enginn á myndirnar og tekst þá að eyðileggja myndirnar. Báðar þessar myndir áttu frekar að vera í stíl við Sin city, þá hefðu þær gengið upp. Svo fékk ég mér líka nýju Final Fantasy myndina. Það var lítið annað talað um á mínu fyrrverandi heimili og var ég orðinn ansi forvitinn að sjá þessa mynd. V for Vendetta var líka í pakkanum og fer hún næst í spilarann. Svo að sjálfsögðu fylgdu nokkrar gamlar góðar Film Noir myndir með (hvað annað).

Þannig að ég hef verið fastur í nöllinu undanfarið og síðan hefur verið ansi mikið að gera í vinnunni. Það fóru allir í frí nema ég í mánuðnum sem var reyndar ágætt því ég notaði tækifærið og tók vel til setti upp hillur og myndir og gerði skrifstofuna notalegri. Það er greinilega farið að skila sér ræktin í sumar, ég er búinn að missa 5 kíló og hef sjaldan verið í jafn góðu formi. Finn það alveg greinilega :-)

Sunday, August 06, 2006

Plebbalert!

Ég fór í bónus í gær og ætlaði að dekra smá við mig og kaupa ís fyrir helgina. Sá tilboðsís á 200 kall og tók hann upp. BÍP BÍP PLEBBALERT PLEBBALERT!!!! Ég svitnaði og skilaði ísnum og tók rjómaís með karmellu og pekahnetum og hugsaði ÓMÆGOD ég er að verða plebbi hvernig datt mér í hug að ætla kaupa óætann ís þótt hann kosti 199 krónur. PÚFF

Ér er með dálítið ábernadi sár á enninu þessa dagana. Ég er að spá í hvort ég eigi að segja sannleikann ef fólk spyr hvað gerðist að það hafi hrunið á mig stafli af DVD myndum á meðan ég svaf eða ég hafi labbað á hurð. Hmm held ég segist hafa labbað á hurð!

Twilight zone



Ég þurfti að taka stætó í vinnuna á laugardagsmorgun og tók leið 4. Vann svo í 2 tíma og tók síðan leið 13 uppí kringlu til að stússast. Tók þá eftir að það var sami bílstjórinn og í leið 4 og hugsaði "nú þeir eru greinilega að keyra margar leiðir". Var svo ekkert mjög lengi í kringlunni og tók síðan leið 4 aftur uppí breiðholt. "Jæja búinn að stússast í kringlunni"? spurði bílstjórinn sem var enn og aftur sami maðurinn! Mér fannst ég vera kominn inní þátt af Twilight zone í svört hvítu og allt! Svo fattaði ég hvað er í gangi. Það er svo erfitt að manna strætisvagana skilst mér að auðvitað er búið að klóna bílstjóranna!

Lenti svo í öðru strætóæfintýri um kvöldið. Fór í heimsókn í bæjinn um kvöldið og tók síðasta vagninn heim. Ég var eini farþeginn og bíllinn tók uppá því að verða olíulaus á miklubrautinni. Það þurfti að ræsa út nýjann vagn til að koma mér eina farþeganum til skila og það var ekki mikil ánægja með það greinilega og ég skemmti mér ágætlega við að láta stjana við mig haha. Verst að bílstjórinn var gamall sjóari og þvílíkur plebbi. En á leiðarenda komst ég og bílstjórinn keyrði mig bara beint heim :-)


Var að kaupa mér miða á Patti Smith tónleikana í háskólabíó. Fór á tónleika með henni á Nasa í fyrra sem voru æðislegir :-) Hún verður að vísu unplugged núna en það er ágætis tilbreyting.

Monday, July 31, 2006

Krutt tonleikar



Síðasta vika var mikil "krútt" tónleikavika. Sigur Rósar tónleikarnir á sunnudagskvöld voru náttúrlega krútt tónleikar ársins og loksins gátu allir plebbarnir og úthverfaliðið farið á Sigur Rósar tónleika enda nær 20 þúsund manns sem mættu. Mér fannst þeir reyndar æði og hafði mjög gaman af uppákomunni.

Ég var svo að selja diska á tónleikum Emiliönu Torrini og Belle & Sebastian á Nasa á fimmtudagskvöldið. Góða við að selja á Nasa er að það er mjög auðvelt að sjá tónleikana þar þó maður sé að selja. Þetta voru fínir tónleikar þó ég hefði nú sennilega ekki borgað mig inn. Hitti Emiliönu loksins, hef ekki séð hana í 2 ár eða svo. Hún er alltaf jafn yndisleg. Ég var uppá palli þegar hún sá mig og hún raðaði saman fullt af drasli til að geta klifrað upp og smellt á mig kossi. Hún er æði :-) Svo voru náttúrlega allir sem maður þekkti úr bransanum á svæðinu og þetta var þrælskemmtilegt kvöld.

Fór svo í Heiðmörkina á laugardag. Er ekkert smá búinn að vera duglegur í útivistinni þessa dagana og svei mér þá ef ég er ekki bara búinn að taka lit! Það er eitthvað nýtt. Verð svo að selja á Morrissey og verð að muna að taka þunglyndislyf fyrir tónleikana annars gæti maður farið á 2 ára bömmer eftir textana hans :-/

Sunday, July 30, 2006

Rokktonleikar i Glasgow



Lufsurnar í keflavík eru að fjölmenna á tónleika í Glasgow í byrjun nóvember. Slayer, Motorhead, Opeth o.fl hljómsveitir. Nú þarf ég að grafa í budduna og sjá hvort maður komist ekki með. Það er orðið allt of langt síðan maður fórr á almennilega rokktónleika úti!

Lag dagsins



Vem kan segla með Lee Hazlewood og Nina Lizell.

Saturday, July 29, 2006

Lag Dagsins



Motor City Madhouse með Ted Nugent!

Sunday, July 16, 2006

Sveitin í úthverfinu

Var að koma út 2 tíma göngutúr um Elliðardalinn. Ég er búinn að finna uppáhaldsstað við elliðarvatn sem er smá úr gönguleið. Þar er góður staður til að setjast með góða bók og i-podd við vatnið og finnast maður vera næstum útí sveit. Samt ef maður lítur aðeins til hægri sér maður nýja Bónus verslun :-) Allstaðar spretta þær upp þessar bónus verslanir! Það er nú góður kostur við þetta leiðindahverfi að það er stutt í góðar göngu og hjólaleiðir og ég nota þær grimmt! Sundlaugin er fín líka fyrir utan plebbana. Ég er samt búinn að finna ágætis tíma þar sem plebbarnir eru annað hvort ekki komnir á fætur eða heima að horfa á sjónvarpið, það eru bestu tímarnir í sundlauginni :-)

Ég sá mynd af litla prinsinum hann Kokksa á bloggsíðunni hjá Friðriki. Þvílikt krútt! Þarf endilega að kíkja í sveitina í sumar og heimsækja sveitafólkið á Eyrarbakka :-)

Ég er kominn með aðgang að öllum sjónvarpsstöðvunum núna og eins og alltaf er mér það ómögulegt að horfa á þessa þætti þar! Eina sem ég hef nennt að horfa á eru síðustu leikirnir í HM og hafði mjög gaman af. Zidame er búinn að gefa "Skalla" nýja meiningu og kemst örugglega enginn nálægt honum þar! Ég er samt á hans bandi því ég er nokkuð viss um að Mattarazzinn hefur sagt eitthvað mjög móðgandi við hann. Hann er víst þekktur skítalabbi. Þar verð ég að taka orð annarra því ég veit satt að segja ekkert um fótbolta!

Annars er lítið spennandi að gerast í tónlistinni akkúrat þessa dagana nema Gulli Falk var að gefa út disk með Dark Harvest! Gulli er ódrepandi :-)

Friday, June 30, 2006

Ammæli

Jæja þá er ég árimu eldri SNÖKT! Og er þá ekki um að gera að byrja að blogga aftur eftir langt hlé. Maður hefur verið hálf áttavilltur eftir skilnaðinn og þó ég sé kannski ekki enn búinn að ná áttum þá er ég allavega búinn að koma mér ágætlega fyrir í breiðholtinu og þó þetta sé bara til bráðabyrgða áhvað ég að koma mér þægilega fyrir. Kominn upp með "surrándið" græjur og tölvur og keypti þessa frábæra dýnu.

Ég fékk svona hálfgert menningarsjokk að koma í úthverfið eftir að hafa búið miðsvæðis síðustu 15 árin og það veit ég að þegar maður flytur næst þá verður það ekki í úthverfunum.

Ég áhvað að kaupa afmælisgjöf handa sjálfum mér í dag og urðu fyrir valinu nýji diskurinn með Lordi, nýja Wig Wam og nýr diskur með Sonic Youth :-) Ég nenni ekki að halda uppá afmælið og áhvað að velja mér einhverjar 2 frábærar myndir til að horfa á í tilefni dagsins og urðu fyrir valinu "Einræðisherran" með Chaplin og "The Wild bunch" eftir Sam Peckinpah. Báðar eru með mínum uppáhaldsmyndum allra tíma :-)

Svo er mamma búin að baka fullt og maður borðar sig væntalega á gat. Kannski maður kíki aðeins á Ítalaleikinn þó mig gruni að þeir taki hann létt.

Annars vill ég óska Kokksa innilega til hamingju með afhvæmið. Eins og hennar var von og vísa þá kom það ekki á venjulegann hátt eins og allir vita náttúrlega :-)

Tuesday, March 21, 2006

Musiktilraunir

Þá eru Músíktilraunirnar byrjaðar aftur. Ég man ekki hve oft ég hef verið í dómnefnd en sennilega hafa einhverjir keppendur ekki verið fæddir þegar ég byrjaði :-) En alltaf er þetta jafngaman. Fjölbreytnin og áhuginn í hljómsveitunum er alltaf jafn skemmtileg, þó að vissulega margar hljómsveitir séu ekki tilbúnar að spila opinberlega og kapp sé oft meira en getan þá er það bara skemmtilegt líka. Þetta er dálítil törn. 51 hljómsveit á 5 kvöldum og síðan úrslitin. Að venju er dekrað við okkur í dómnefndinni, nóg að borða og drekka (óáfengt að sjálfsögðu) og mikið spjallað enda margir spekingar saman komnir. Ég er sérstaklega ánæður með að kvenfólki hefur fjölgað í dómnefndinni og mættu þær vera fleiri.
Annars er þetta ofsalega rólegur tími í vinnunni og reyndar ekki mjög skemmtilegur. Fullt af góðum plötum í gangi en engin sala. En páskarnir nálgast og þá pikkar alltaf upp. Svo er manni líka farið að hlakka til páskafrísins, það er einhvernveginn meira frí en um jólin. Einnhverjar fermingar sjálfsagt ég veit allavega um eina sem ég þarf að mæta í.
Svo eru nú bestu fréttirnar að Lemmy sjálfur er að mæta á skerið með Motorhead YEEAAAHHHHHH. Það mun sko ekki klikka að mæta þar á svæðið :-)

Sunday, March 12, 2006

Monsters of Akureyri

Jæja ég setti land undir fót um daginn og fór til Akureyrar í fyrsta skiftið í 10 ár eða svo. Fór norður í bílskróð með Sigga Sverris og var sú ferð með eindæmum góð. Langt síðan við höfðum spjallað og nóg umræðuefni báðar leiðir. Fengum hreint ótrúlegt ferðaveður, sól og logn alla leið og langleiðina til baka. Ferðin tók um 4 og hálfann tíma hvora leið.
Síðan var haldið gott partý laugardagskvöldið sem byrjaði með matarboði. Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn svo spilltur af góðum mat hjá Grumpu og heima að mér fannst maturinn ekkert sérstakur en félagsskapurinn bætti þar úr. Síðan var farið í getraunarkeppni o.fl. Þetta kvöld var með eindæmum gott, góður andi yfir hópnum og mjög skemmtilegir. Að sjálfsögðu fengum við kvartanir frá nágrönnum en ég get ekki sagt að þetta hafi verið rokkælupartý því allir voru nú frekar dannaðir. Mér var svo formlega boðið í klúbbinn og er ég nú stoltur meðlimur í 2 rokk klúbbum bæði utanbæjar. Það verður svo stefnan að koma á fót landsmóti í sumar þar sem báðir klúbbarnir mæta og bera saman bækur (tónlist) sína.
Daginn eftir var mér svo boðið í æðislegann hádegisverð áður en við Siggi héldum suður aftur.

Saturday, February 25, 2006

Á Leið Til Akureyrar

Þá er komið að því að leggja land undir fót og bregða sér til akureyrar. Þar er árshátíð hjá rokkklúbbnum Reiðmenn (Ömurlegt nafn) og verður það örugglega mikið stuð. Þar verður m.a. spurningarkeppni, valinn besti söngvari allra tíma og besta gítarsóló allra tíma! Það verður leynigestur (wonder who?) og örugglega drukkinn einn bjór eða tveir. Fer norður með Sigga Sverris og við förum bílandi þannig að það fer væntanlega góður tími í keyrslu og ég verð að viðurkenna að það er nú ekki alveg í blóðinu að fara í svona langferðir. Mér finnst langt til Eyrarbakka!
Ég vona að þorrablótsvalentínugeimið fari vel fram og leiðinlegt að vera fjarri góðu gamni.

Sunday, February 12, 2006

Lufsurnar

Ég fór í langferð um helgina. Alla leið til keflavíkur! Ég undirbjó mig vel, setti 1500 lög inná i-poddinn, tók með bakpoka með nýja Classic Rock blaðinu, bók og fleiri nausynjavörur fyrir svona langt ferðalag. En viti menn, þó að rútan silaðist í gegnum hafnarfjörð á leiðinni tók ekki nema 50 minútur að koma sér á staðinn. Það er styttri tími en að fara í smáralind í nýja strætókerfinu!

En allavega, tilgangur ferðarinnar var að mæta í árshátíð hjá rokk klúbbi í keflavík sem heitir lufsurnar og hef ég verið meðlimur í honum í mörg ár en ekki farið á fund árum saman. Þetta er rosalega skemmtilegur félagsskapur, samblanda af eldri mönnum eins og mér ásamt yngri rokkurum sem hafa bæst við undanfarin ár. Dagskráin var mjög skemmtileg, fyrir utan að drekka bjór eins og búast má við og hlusta á gott rokk, voru valdar plötur ársins auk þess sem að löng og skemmtileg spurningarkeppni var sett upp. Það var greinilega mikil vinna sett í leikinn og hreint óskaplega gaman að taka þátt og ekki skemmdi fyrir að liðið sem ég var í vann :-) Plötur ársins voru svo valdar í topp 5. 1. Opeth. 2. System of a down (báðar plöturnar sem komu út á árinu). 3. Clutch. 4. Soulfly. 5. Arch Enemy. Ég var með í topp 5 Opeth, System, Mars Volta, Soulfly og Judas Priest þannig að 3 af mínum plötum komust inn á listann. Þetta var mjög gaman.

Svo eftir 2 vikur fer ég til akureyrar þar sem annar rokk klúbbur hefur boðið mig á "fund" og verður það mjög spennandi. Ég hef ekki áður mætt á fund með þeim félögum en það verður örugglega skemmtilegt, þar fyrir utan að ég hef ekki komið til akureyrar í 10 ár eða meira.

Svo keypti ég mér miða á "War of the worlds" með sinfóníuhljómsveitinni og er mjög spenntur fyrir því. Það er eitthvað við War of the worlds verkið sem hefur alltaf heillað mig.

Tuesday, February 07, 2006

Kjaftadeildin

Ég er búinn að komast að því að ég er alveg glataður í kjaftadeildinni! Ég hef undanfarið verið í sjúkraþjálfun sem er ekki frásögum færandi, en það er með þá staði eins og heitu pottana að fólk liggur og kjaftar um daginn og veginn. Og venjulega er ég engann veginn inní það msem er talað um. Fyrst var það handboltinn! Mér skildist að íslendingar slysuðust til að vinna einhverja leiki og það varð allt vitlaust. "Horfðuru á leikinn í nótt"? Sénsinn að maður mundi vakna upp á nóttinni að horfa á handboltaleik. Ég var greinilega utanvelta á bekknum þá vikuna. Síðan þegar handboltinn virtist taka enda (íslendingar hljóta að hafa tapað eða eitthað) tók við Eurovision. Vá helduru að Silvía Nótt verði rekin úr Eurovision? "Nei veistu ég hef ekki heyrt lagið eða horft á þessa forkeppni" Það var litið á mig eins og ég væri með fuglaflensu. Vá þessi er greinilega frá Mars eða eitthvað mátti lesa úr svipnum á nuddaranum. Eina skoðunin sem ég hef er að fyrst að leiðinlegasti maður íslands, Kristján Hreinsson, er að kæra þetta stend ég algerlega með Silvíu Nótt. Það er líka kominn tími til að íslendingar hætti að taka þessa keppni svona alvarlega! C'mon þessi keppni er bara djók hjá flestum þjóðum og íslendingar halda alltaf að þeir séu að senda meistarastykki í lagasmíðum og skilja ekkert í því að einu stigin sem við fáum eru einhver skyldustig hjá nágrannaþjóðum okkar. En það er greinilegt að ég þarf að taka mig á í kjaftadeildinni. Kannski að fara horfa á einhverja raunveruleikaþætti eða eitthvað.
Monty Python kvöldið heppnaðist mjðg vel og horfðum við á 2 myndir, Life of Brian og Fish called Wanda. Báðar hrein snilld. Og ég var að fá æðislega plötu í hendurnar með Mark Lanegan og Isobel Campbell. Þvílík snilld. Ég er nú samt viss um að ef ég færi að segja frá því í sjúkraþjálfuninni að ég fengi ansi tómann svip :-)

Monday, January 09, 2006

Life of Brian

Í tilefni af því að sú æðislega mynd Monty Python "Life of Brian" var valin besta gamanmynd allra tíma í Bretlandi finnst mér við hæfi að bjóða í bíókvöld á Hringbrautina seinnipartinn í janúar. Gott væri að fá hugmyndir hvaða kvöld henta mannskapnum best og það er alveg nauðsynlegt að Kokksi láti sjá sig :-) Annars er lítið að frétta úr vesturbænum þessa stundina. Er að horfa á hina frábæru sjónvarpsþætti "Tales from the crypt" þessa dagana ásamt því að grípa í einn og einn X-Files þátt með Tensai og jafnvel eina og eina gamla mynd! Hundleiðinar talningar og uppgjör í vinnunni eins og alltaf á þessum tíma. Og já við stældum Grumpu og fengum okkur þrekhjól á heimilið, ekkert smá þægilegt að geta gláft á imbann meðan maður er að hjóla!

Sunday, January 01, 2006

Gleðilegt Ar

Gleðilegt ár og takk fyrir þau liðnu. Þetta er búið að vera viðburðarríkt ár! Heldur betur. Allt það æðislega í kringum bókina og Tensai minni er búið að vera æfintýri líkast og er hún Tensai mín vel að þessu komin enda kjarnorkukelling! Ég hafði það æðislega gott um jólin og áramótin þó eins og allt annað voru þau frekar skrýtin þar sem Tensai var að vinna öll jólin. En við héldum okkar jól nokkrum dögum síðar og ég get ekki lýst hamingju minni yfir öllum fínu pökkunum sem ég fékk. Þar bar hæðst nýr I-Pod sem hún Tensai mín gaf mér :-) Svo fékk ég þetta fína Bette Davis safn frá henni líka ásamt nýrri sundskýlu, Batman Returns, Letibuxur o.fl o.fl. Fékk kaffibyrgðir næstu vikuna og þessa æðislegu bók um Monty Python frá kokksa og tengdó :-) Svo fékk ég nöllasett dauðans sem eru 2 DVD 2CD og 88 síðna bók með Kraftwerk :-) og náttúrlega fullt í búið o.fl. Ég elska jólin :-) :-) Vinnan gékk vel og nýja árið lítur vel út. Helsti draumurinn er að fara ferðast eitthvað á nýju ári. Unglingurinn á hemilinu er búinn að uppgötva London og er að fara sína aðra ferð á tæpum mánuði fljótlega. Og já ég ætla að vera duglegri að blogga :-) PROMISE! Við Tensai erum núna að horfa á allar gömlu Star Wars myndirnar í einum rykk. May the force be with you :-)

Friday, December 02, 2005

Bloggleysi

Það er búið að vera ansi mikið bloggleysi undanfarið hjá undirrituðum.Þessi árstími er alveg ferlegur. Brjálað að gera í vinnunni og einhvernveginn hefur maður aldrei tíma til neins og er svo bara dauðþreyttur og andlaus þegar laus er stund og manni langar eiginlega bara til að horfa á einhverja heilalausa mynd.
En það er fullt af skemmtilegum hlutum að gerast þessa dagana. Tensai verður frægari og frægari og ég þarf að hafa mig allann við að bægja frá æsta aðdáendur. Verð að viðurkenna að ég er ekkert smá stoltur af kellu :-).Finnst hún eiga þetta allt skilið og meira til.
Ég bið forláts að hafa misst af Thanksgiving partýinu góða. Forski kom samt með afganga heim og smakkaðist það með afbrigðum vel. Læt mig ekki vanta á Lúsíuna allavega.
Sá í fréttum að farþegum í strætó hefur fækkað um 10% á árinu. Og ekki var ásóknin beysin fyrir. Þetta kemur mér ekki á óvart. Hverjum datt í hug að hanna þetta fáráðlega nýja kerfi? Þegar vetra tók og maður gat ekki hjólað í vinnu eins og venjulega þá komst maður heldur betur hvað þetta kerfi er ömurlegt. Í fyrsta lagi eru vagnarnir aldrei á réttum tíma. Vagnstjórarnir pirraðir á öllum skömmunum á ónýtu kerfi og þar að auki ef þú þarft að komast á milli stað a og b þá þarftu að fara rúnt með strætó í hálftíma til að komast leið sem tók áður 10 minútur. Hmmm en ég ætla samt ekki að fá mér bíl alveg strax. Mig langar frekar til að eyða peningum í svarthvítar myndir og heimabíó :-)
Jæja best að halda áfram að horfa á Nightmare Alley frá 1947. Frábær mynd!

Thursday, November 17, 2005

Þakkargjöf

Nei sko loksins tókst mér að losa mig úr Turbo 2000 sófanum og eftir að hafa verið á spítala eftir að hafa verið troðinn undir af æstum aðdáendum Tensai San í Smáralindinni er ég loksins kominn á ról!
Það er byrjað enn og aftur þetta sama jólarugl. Það er undanlegt hvað allir í þessum verslunarbransa fara alltaf á taugum á þessum tíma. Það vita allir að það verður góð sala, Íslendingar eru kaupóðir og þar dugar ekkert minna en þreföld mánaðarlaun í gjafir og í leiðinni verður nú að innrétta íbúðir uppá nýtt svo allt verðu nú sem best fyrir þessa 2 daga yfir jólin! Síðan er bara að taka yfirdráttarlán eftir jól til að borga brúsann. Jeminneini!
En við ætlum nú ekki að fara á taugum á Hringbrautinni og nú stendur til að halda "Thanksgiving" partý laugardagskvöldið 26 nov. Grumpa og Forski ætla að sjá um eldamennskuna þannið að það er ljóst að enginn má missa af þessu geimi :-)

Tuesday, November 01, 2005

Halloween

Jæja þá fer að styttast í Halloween partýið hjá Grumpu og ég er farinn að fægja Gísla Martein búninginn minn. Hef líka verið að æfa Gísla Marteins brosið og geng nú með herðatré í munninum alla daga. Annars er lítið búið um að vera hjá mér undanfarið, Datt samt inn í hrollvegkjusett sem ég fékk fyrir stuttu með átta gömlum Hammer myndum. Þar eru eðalmyndir á borð við The Evil of Frankemstein, The Brides of Dracula, Phantom of the opera, Curse of the werewolf o.fl gæðagripir. Það þarf varla að taka fram að ég hef horft á þær einn. Bæði Forski og Tensai taka til fótanna um leið og þær heyra veinin í sjónvarpstækinu. Annars horfði ég á The Aviator með Forska síðustu helgi og líkaði vel. Gat sagt Forska allar kjaftasögurnar um gömlu stjörnurnar sem voru túlkaðar í myndinni. Svo er bara að mæta í geimið góða næsta laugardagskvöld :-)

Friday, October 14, 2005

Judas Priest YEAHHHH

Mér voru að berast þær fréttir í dag að Judas Priest gætu komið til landsins og spilað í laugardagshöll 9 des næstkomandi!
Þetta eru frábærar fréttir :-) Það er ekki búið að ganga fullkomlega frá þessu en líkurnar eru svona cirka 80% sem er bara helv flott! Prestarnir gáfu út frábæra plötun á árinu og eru í fínu formi þessa dagana. Það verður hressandi að komast aðeins frá jólalagagaulinu í desember og hrista hausinn smá :-) Svo er þetta á laugardagskvöldi sem er ekki verra! Nú bið ég til rokkguðsins að þetta gangi upp!